Ferðalýsing
Í þessari Suður-Ameríku ferð fáum við að upplifa nokkra af einstökustu stöðum heims. Það er stórkostleg upplifun að ferðast um Argentínu, Brasilíu og Úrúgvæ. Gífurlega fjölbreytt lönd með stórfenglegri náttúru og ríkri sögu. Í Argentínu munum við byrja ferðina í stórborginni Buenos Aires sem er full af sögu, mikilfenglegum byggingum, breiðustu breiðgötu í heimi þar sem andrúmsloft tangó og sögunnar svífur í loftinu. Þetta er heimsókn full af upplifunum, meðal annars La Boca, Casa Rosada, sigling á breiðasta fljóti heims og tangósýning. Við siglum einnig yfir til nágrannalandsins Úrúgvæ þar sem við heimsækjum portúgalska nýlendubæinn Colonia del Sacramento, einn af elstu bæjum landsins. Því næst höldum við til Salta héraðsins sem er eitt af fallegustu og einstökustu svæðum Argentínu með litrík fjöll, saltekrur, kaktusa og vínekrur. Þar næst höldum við til hinna stórbrotnu Iguazu fossa, sem eru meðal fallegustu og mikilfenglegustu fossum heimsins. Síðast en ekki síst endum við ferðina í Río de Janeiro í Brasilíu þar sem við förum upp að hinni þekktu Kristsstyttu, förum með kláfi upp á Sykurtoppinn auk góðs tíma til að njóta þekktra stranda eins og Copacabana. Það má með sanni segja að þessi ferð sé ógleymanleg og full af upplifunum með tíma til hvíldar inn á milli.
Hægt er að bóka sig í ferðina með því að greiða staðfestingargjald hér.
Ingibjörg Björnsdóttir er fararstjóri í ferðinni, og er fædd 1983 í Reykjavík. Hún féll fyrir Argentínu og Suður-Ameríku árið 2008 þegar hún fór í spænsku nám í Buenos Aires og skiptinám til Úrúgvæ. Hún er vanur fararstjóri og hefur meðal annars reynslu af fararstjórn á Spáni, í Kenía, Egyptalandi, og Grikklandi. Hún hefur ferðast og verið búsett víða og meðal annars skipulagt ferðir til Afríku, Evrópu og Suður-Ameríku. Hún er með BA-próf í viðskiptafræði, tungumálum og menningu frá Copenhagen Business School 2009 og meistaragráðu í þjónustustjórnun með áherslu á ferðamálafræði einnig frá Copenhagen Business School 2012. Enn fremur hefur Ingibjörg lært markþjálfun frá Flow Coaching Institute. Hún bjó erlendis frá 2003 en flutti svo aftur heim til Íslands árið 2017.
Dagur 1: 11. mars- Ferðadagur: Keflavík til Frankfurt og Frankfurt til Buenos Aires
Við fljúgum með Lufthansa frá Keflavík til Frankfurt kl. 14:55 og lendum kl. 19:30, og fljúgum svo til Buenos Aires kl. 22:05 í næturflugi.
Dagur 2: 12. mars – Komum til Buenos Aires
Við lendum í Buenos Aires kl. 07:55 þar sem rúta bíður okkar á flugvellinum og keyrir okkur á hótelið okkar, Novotel Buenos Aires (4*) þar sem við innritum okkur og gistum næstu fimm næturnar. Hótelið er staðsett miðsvæðis í Buenos Aires og í göngufæri frá mörgum af helstu kennileitum borgarinnar, eins og Teatro Colón leikhúsinu, Café Tortoni og Palacio Barolo auk göngugötunnar Calle Florida. Frjáls tími er fram að kvöldmat þar sem hægt er að hvíla sig eða byrja að kynnast borginni.
Um kvöldið förum við í sameiginlegan þriggja rétta kvöldverð og á tangó sýningu í hjarta San Telmo, elsta hverfi Buenos Aires. Á sýningunni eru yfir 30 listamenn á sviði með lifandi tónlist. Það er eins og að ferðast aftur í tímann að koma inn í fallega bygginguna og upplifabæði bæði tangó og þjóðdans.
(Kvöldverður innifalinn)
Dagur 3: 13. mars – Buenos Aires borgarferð
Dagur 4: 14. mars – Frjáls dagur – Valfrjáls aukaferð: Tigre og fljótið Río de la Plata
Í dag er frjáls dagur í Buenos Aires og þau sem vilja geta komið með í fljótasiglingu á Río de la Plata sem þýðist sem silfurfljótið sem er breiðasta á í heimi. Eftir klukkustundarsiglingu komum við að óshólmum Parana, þar siglum við í gegnum mjóa farvegi og framhjá eyjum sem er vinsæll helgaráfangastaður fyrir Porteños (íbúa Buenos Aires) og heimili þúsunda “isleños” (eyjabúa).
Í hádeginu stoppum við í Tigre, mikilvægri borg í úthverfi Buenos Aires, þar sem við fáum okkur drykk og týpiskt argentínskt snarl, þar á meðal „empanadas“ í fallegu umhverfi. Við keyrum svo aftur til Buenos Aires og sjáum á bakaleiðinni úthverfi Buenos Aires, þar sem um 25% þjóðarinnar býr. Í ferðinni munum við einnig heimsækja the Fruit’s Market, sem er markaður þar sem heimamenn versla og hægt er að finna skemmtilega minjagripi. Einnig stoppum við í San Isidro City þar sem við fáum tækifæri til að heimsækja stórkostlega dómkirkju.
(Morgunverður innifalinn)
Dagur 5: 15. mars – Dagsferð til Colonia del Sacramento í Úrúgvæ
Eftir morgunverð skreppum við til Úrúgvæ sem er staðsett mitt á milli Argentínu og Brasilíu. Þau sem koma frá Úrúgvæ segja að þau komi frá mjög fámennu landi en þar búa 3 milljónir sem eru ekki margir þegar miðað er við nágrannalöndin. Við förum með ferjunni yfir Río de la Plata fljótið og það er sem við stígum aftur til fortíðar þegar við fáum að kynnast Colonia del Sacramento sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Við byrjum á að ganga um bæinn í tvær klukkustundir með leiðsögumanni þar sem við sjáum fallegar portúgalskar byggingar frá nýlendutímanum, blómafyllt torg og krókótta steinvölustíga. Við fáum svo frítíma í þessum fallega bæ þar sem hægt er að skoða handverksbúðir.
(Morgunverður og hádegisverður innifalinn)
Dagur 6: 16. mars – Frjáls dagur í Buenos Aires
Í dag fáum við að njóta þess sem við viljum seinasta daginn okkar í Buenos Aires áður en við höldum á vit annarra ævintýra.
Valfrjáls aukaferð: Dagsferð á argentínskan búgarð þar sem við kynnumst hinum argentínska „Gaucho“ (kúreki), borðum empanadas og fáum okkur hið fræga argentínska asado (grill) í hádegismat.
(Morgunverður innifalinn)
Dagur 7: 17. mars – Salta – kaktusar, vín og empanadas
Í dag fljúgum við norður til einstöku Salta í Salta héraðinu í Argentínu. Við innritum okkur inn á fallega 4 stjörnu Design Suites Salta. Það er staðsett í hjarta Salta. Restin af deginum er frjáls og hægt er að kynnast borginni Salta sem er gjörólík stórborginni Buenos Aires.
Frjáls tími restina af deginum.
(Morgunverður innifalinn)
Dagur 8: 18. mars – Náttúrufegurð Salta : Saltsléttur og Purmamarca
Salta héraðið er með gífurlega fjölbreytt landslag og á landamæri við Bólivíu, Chile og Paraguay. Í dag munum við keyra til norðurhluta Salta, til Salinas Grandes eða Stóru Saltsléttanna sem eru við mörk héraðanna Salta og Jujuy í hálendi norðversturhluta Argentínu.
Það er stórbrotið landslagið í Saltahéraðinu og fallegt útsýni á leiðinni.
(Morgunverður og hádegisverður innifalinn)
Dagur 9: 19. mars – Frjáls dagur í Salta – Valfrjáls aukaferð – Vínekrur Cayafate
Í dag er frjáls dagur í Salta. Þau sem vilja geta komið með í valfrjálsa aukaferð til vínekra Cayafate.
Dagur 10: 20. mars – Salta til Iguazu
Eftr hádegisverð fljúgum við til Iguazu, flugtíminn er tæplega 2 klukkustundir. Við innritum okkur inn á glæsilega fimm stjörnu hótelið Mercure Igazú Hotel Irú, staðsett í Puerto Iguazu þar sem við gistum næstu tvær næturnar.
(Morgunverður innifalinn)
Dagur 11: 21. mars – Iguazu fossarnir – Argentínu megin
Hvað eru fallegustu fossar sem þú hefur séð? Flestir sem hafa séð Iguazu fossana segja þá vera þá fallegustu. Við hlökkum til að heyra hvað hópurinn okkar segir eftir daginn í dag. Við heimsækjum argentísku hlið fossanna, sem eru staðsettir í regnskóginum. Við göngum í fallegum gróðri þar sem eru fjölbreyttir fuglar og stór fiðrildi flögrandi um og upplifum þessa stórfenglegu fossa.
(Morgunverður innifalinn)
Dagur 12: 22. mars Iguazu fossarnir Brasilíu megin – og svo til Ríó
Eftir morgunverði höldum við til Brasilíu og fáum að sjá Iguazu fossana Brasilíu megin.
Við höldum svo upp á flugvöll og fljúgum því næst til hinnar fallegu Ríó de Janeiro. Flugið tekur tæplega 2 klukkustundir.
Við innritum okkur inn á hótelið okkar, PortoBay Rio International, sem er staðsett í hjarta Copacapana strandarinnar á Avenida Atlantida þar sem við gistum næstu 5 næturnar
Dagur 13: 23. mars – Corcovado, Kristsstyttan og Santa Teresa
Í dag byrjum við að kynnast Ríó de Janeiro betur. Við förum í lest sem fer með okkur upp fallegu fjallshlíðina upp að Kristsstyttunni frægu sem gnæfir yfir Ríó. Hún var valin ein af sjö nýju undrum veraldar og er í rúmlega 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Við höfum einnig tíma til þess að dást að útsýninu yfir Ríó de Janeiro frá einum af flottustu útsýnisstöðunum. Við skoðum okkur svo meðal annars um í Santa Teresa hverfinu sem er með sjarmerandi litlum götum, galleríum og menningarhúsum með útsýni yfir Guanabara flóann og sjáum hinar frægu Selaron tröppur í Lapa hverfi Ríó. Eftir þennan dag munum við finna að við höfum kynnst bæði sögu og menningu Ríó de Janeiro betur.
Dagur 14: 24. mars – Ríó de Janeiro – Sugar Loaf fjallið
Eftir morgunverð höldum við upp á Sykurtoppinn sem er eitt helsta kennileiti Ríó. Hinn frægi Sykurtoppur rís frá litlum skaga í byrjun Guanabara skanas. Við munum fara upp með kláfi þar sem við fáum 360 gráðu útsýni yfir borgina, Copacapana og Botafogo strendurnar, Corcovado og miðbæ Ríó. Eftir ferðina borðum við hádegisverð saman.
Dagur 15: 25. mars – Frjáls dagur í Ríó de Janeiro
Í dag er frjáls dagur til að njóta í Ríó de Janeiro og fallegu strandanna.
Valfrjáls aukaferð til Petropolis fyrir þau sem vilja.
(Morgunverður innifalinn)
Dagur 16: 26. mars – Frjáls dagur í Ríó de Janeiro
Í dag er frjáls dagur til að njóta í Ríó de Janeiro og fallegu strandanna.
Valfrjáls aukaferð: Jeppaferð í Grasagarðinn og Tijuca skóginn. Grasagarðurinn var búinn til 1817 af portúgalska konungnum King John VI þar sem er að finna gífurlegt magn af sjaldgæfum og framandi plöntum úr öllum heiminum. Tijuca skógurinn er stærsti skógur við þéttbýli í heiminum og í ferðinni sjást oft ýmis dýr eins og apar, letidýr og framandi fuglar.
Dagur 17: 27. mars – Fljúgum aftur heim til Íslands
Í dag er heimferðardagur. Við borðum morgunverð og um hádegi skráum við okkur út af hótelinu og höldum út á flugvöll. Við fljúgum með Lufthansa til Frankfurt kl. 15:30, flugið tekur 11 tíma og 15 mínútur, við millilendum í Frankfurt í 4 klukkustundur og lendum svo í Keflavík kl. 13:55 á íslenskum tíma daginn eftir.
Dagur 18: 28. mars – Lendum á Íslandi
Við lendum í Keflavík kl. 13:55 á íslenskum tíma.
*athugið að dagskrá getur tekið breytingum
Hægt er að bóka sig í ferðina með því að greiða staðfestingargjald hér.
Innifalið í ferðinni:
- Flug fram og til baka með Lufthansa
- Flugvallagjöld og skattar
- Ferðataska (23kg) og handfarangur
- Innanlandsflug frá Buenos Aires til Salta, frá Salta til Iguazu og frá Iguazu til Ríó de Janeiro
- Íslensk fararstjórn
- Sérfróðir innfæddir enskumælandi leiðsögumenn
- Allar rútuferðir
- Morgunverður alla daga
- Allar skoðunarferðir og aðgangseyrir skv. ferðaáætlun
- Allar ferðir milli flugvalla og hótela, komu og brottfarastaða (ekki á Íslandi)
EKKI innifalið:
- Þjórfé
- Drykkir
- Aukaferðir
Ferðin kostar : 959.000 kr. á mann m.v. 2 fullorðin saman í herbergi.
Einstaklingsherbergi kostar 232.000 kr. aukalega.
Staðfestingargjald er 120.000 kr.
Mikilvægt:
- Mælt er með að fólk láti bólusetja sig gegn hinum hefðbundu sjúkdómum. Bóka má tíma og fá nánari upplýsingar hjá heilsugæslunni.
- Vegabréf þurfa að gilda í minnst sex mánuði frá komudegi til Brasilíu.
- Lágmarksþáttaka þarf að nást til að ferð sé farin.